Lóritín

Tafla | 10 mg

Virk innihaldsefni:

Íkomuleið:

Til inntöku

Flokkur:

Lyf fyrir menn

ATC-flokkur:

R06AX13 - Loratadinum

Markaðsleyfishafi:

Teva B.V.

Umboðsmaður:

Teva Pharma Iceland ehf.

Heildsala:

Distica hf.

Upplýsingar um Lóritín og við hverju það er notað

Lóritín tilheyrir hópi andhistamín lyfja. Andhistamín dregur úr ofnæmiseinkennum með því að koma í veg fyrir áhrif histamíns sem er framleitt í líkamanum.

Lóritín er ofnæmislyf sem dregur úr ofnæmiseinkennum eins og nefrennsli, kláða í augum, ofsakláða og ofnæmiskvefi. Hægt er að halda einkennunum niðri heilan dag þannig að unnt er að sinna daglegum störfum og þetta stuðlar einnig að eðlilegum nætursvefni.

Verið getur að læknirinn hafi ávísað lyfinu við öðrum sjúkdómi eða í öðrum skömmtum en tiltekið er í þessum fylgiseðli. Ávallt skal fylgja fyrirmælum læknis og leiðbeiningum á merkimiða frá lyfjabúð.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Ekki má nota Lóritín ef þú hefur ofnæmi fyrir lóratadíni eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins.

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en Lóritín er notað:

  • ef þú ert með skerta lifrarstarfsemi.

Notkun annarra lyfja samhliða Lóritín

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð.

Komið hefur fram að styrkur lóratadíns í blóði getur hækkað við samtímis notkun ketókónazóls (sveppalyfs), erýthrómýcíns (sýklalyfs) og címetidíns (magalyfs), án þess þó að það hafi nokkur áhrif sem máli skipta fyrir notkunina. Tíðni aukaverkana getur þó aukist.

Húðpróf

Hætta skal notkun Lóritín 48 klukkustundum fyrir framkvæmd húðprófa þar sem lyfið getur haft áhrif á niðurstöður.

Notkun Lóritín með mat, drykk eða áfengi

Lóritín má taka með eða án matar. Lóritín eykur ekki áhrif áfengis.

Meðganga og brjóstagjöf

Við meðgöngu, brjóstagjöf, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað.

Notkun Lóritín á meðgöngu er ekki ráðlögð.

Lóratadín berst í brjóstamjólk, því er notkun Lóritín ekki ráðlögð fyrir konur með barn á brjósti.

Akstur og notkun véla

Lóritín er ekki talið hafa áhrif á hæfni til aksturs eða stjórnunar annarra vélknúinna tækja þegar það er notað í ráðlögðum skammti. Lyfið getur þó í einstaka tilfellum valdið syfju hjá sjúklingum sem getur haft áhrif á hæfni þeirra til aksturs vélknúinna ökutækja.

Hver og einn verður að leggja mat á getu sína til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni. Eitt af því sem getur haft áhrif á slíkt er lyf, vegna verkunar sinnar eða aukaverkana. Lýsing á verkun og aukaverkunum er í öðrum köflum fylgiseðilsins. Lesið því allan fylgiseðilinn. Ef þörf er á skal ræða þetta við lækni eða lyfjafræðing.

Lóritín inniheldur mjólkursykur (laktósa)

Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn.

Hvernig nota á Lóritín

Alltaf skal nota lyfið nákvæmlega eins og lýst er í þessum fylgiseðli eða eins og læknirinn hefur mælt fyrir um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Ráðlagður skammtur

  • Fullorðnir og börn eldri en 12 ára: Ein tafla (10 mg) einu sinni á dag með glasi af vatni, með eða án máltíðar.
  • Börn 2-12 ára - skammtar fara eftir þyngd barnsins:
    Ef barnið er þyngra en 30 kg er ráðlagður skammtur:
    Ein tafla (10 mg) einu sinni á dag með glasi af vatni, með eða án máltíðar.
    Ef barnið vegur minna en 30 kg er ráðlagður skammtur:
    Hálf tafla (5 mg) einu sinni á dag með glasi af vatni, með eða án máltíðar.
  • Lóritín er ekki ætlað börnum yngri en 2 ára nema að höfðu samráði við lækni.

Sjúklingar með skerta lifrarstarfsemi

  • Fullorðnir og börn eldri en 12 ára:
    Ein tafla (10 mg) annan hvern dag með glasi af vatni, með eða án máltíðar.
  • Börn sem vega meira en 30 kg:
    Ein tafla (10 mg) annan hvern dag með glasi af vatni, með eða án máltíðar.
  • Börn sem vega minna en 30 kg:
    Hálf tafla (5 mg) annan hvern dag með glasi af vatni, með eða án máltíðar

Batni einkenni ekki innan 7 daga skal hafa samband við lækni. Sé þörf á að nota Loritín í lengri tíma en 3 mánuði skal hafa samband við lækni til að rannsaka hvort að einkenni séu ekki af völdum ofnæmis.

Töflunni má skipta í jafna skammta.

Ef notaður er stærri skammtur en mælt er fyrir um

Ef of stór skammtur af lyfinu hefur verið notaður, eða ef barn hefur í ógáti tekið inn lyfið skal hafa samband við lækni, sjúkrahús eða eitrunarmiðstöð (sími 543 2222).

Tilkynnt hefur verið um svefnhöfga, hraðtakt og höfuðverk í tengslum við ofskömmtun.

Ef gleymist að nota Lóritín

Ef gleymist að taka skammtinn á réttum tíma skal taka hann eins fljótt og auðið er og taka svo næsta skammt eins og venjulega. Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að taka.

Ef hætt er að nota Lóritín

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

Fyrirvari

Hugsanlegar aukaverkanir má finna í fylgiseðli lyfsins.

Fylgiseðillinn kann að hafa verið uppfærður eftir að upplýsingarnar að ofan voru teknar saman. Í þeim tilfellum sem upplýsingarnar stangast á skal fara eftir því sem fram kemur í fylgiseðli.

Pakkningar og verð