Nurofen Junior Appelsín
Mixtúra, dreifa | 40 mg/ml
Virk innihaldsefni:
Íkomuleið:
Til inntöku
Flokkur:
Lyf fyrir menn
ATC-flokkur:
Markaðsleyfishafi:
Heildsala:
Distica hf.
Allar pakkningar nema 150 ml lausasala
Upplýsingar um Nurofen Junior og við hverju það er notað
Íbúprófen tilheyrir flokki lyfja sem kallast bólgueyðandi gigtarlyf. Þessi lyf verka með því að breyta svörun líkamans við verkjum og háum hita. Nurofen Junior er til skammtímameðferðar við:
- hita
- vægum til miðlungi alvarlegum verkjum
Þú verður að tala við lækni ef barninu þínu líður ekki betur eða ef barninu líður verr eftir 3 daga.
Áður en byrjað er að nota Nurofen Junior
Verið getur að læknirinn hafi ávísað lyfinu við öðrum sjúkdómi eða í öðrum skömmtum en tiltekið er í þessum fylgiseðli. Ávallt skal fylgja fyrirmælum læknis og leiðbeiningum á merkimiða frá lyfjabúð.
Varnaðarorð og varúðarreglur
Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en Nurofen Junior er notað ef barnið:
- er með sýkingu – vinsamlegast lesið undir fyrirsögninni „Sýkingar“ hér fyrir neðan.
- er með ákveðna arfgenga blóðmyndunarsjúkdóma (t.d. bráða, slitrótta porfýríu)
- þjáist af blóðstorkuröskun
- er með ákveðna húðsjúkdóma (rauða úlfa eða blandaðan bandvefssjúkdóm)
- er með eða hefur einhvern tíma fengið þarmasjúkdóma (sáraristilbólgu eða Crohns sjúkdóm) þar sem þessir sjúkdómar gætu versnað
- hefur einhvern tíma haft eða er með háan blóðþrýsting og/eða hjartabilun
- er með skerta nýrnastarfsemi
- er með lifrartruflanir. Við langvarandi notkun Nurofen Junior þarf reglulega að fylgjast með lifrargildum, nýrnastarfsemi og blóðkornatalningu
- ráðleggja skal að gæta varúðar ef önnur lyf eru tekin sem geta aukið hættuna á sáramyndun eða blæðingum, svo sem barksterar til inntöku (svo sem prednisólon), lyf er þynna blóðið (svo sem warfarín), sértækir serótónín endurupptökuhemlar (lyf gegn þunglyndi) eða lyf er hindra samloðun blóðflagna (svo sem acetýlsalicýlsýra).
- tekur önnur bólgueyðandi gigtarlyf (þ.m.t. COX-2 hemlar svo sem celecoxib eða etoricoxib) þar sem forðast ætti samhliða notkun þessara lyfja
- Lágmarka má aukaverkanir með því að taka lægsta virka skammt í eins stuttan tíma og hægt er.
- Regluleg notkun (ýmissa tegunda) verkjalyfja getur almennt valdið varanlegum nýrnavandamálum. Áhættan getur aukist við líkamlegt álag sem er tengt við salt- og vökvatap. Því skal forðast slíkt.
- Langvarandi notkun hvers konar verkjalyfja við höfuðverk getur gert hann verri. Ef sú staða kemur upp eða grunur er um slíkt skal leita til læknis og stöðva meðferð. Hjá sjúklingum sem fá höfuðverk oft eða daglega þrátt fyrir (eða vegna þess) að notuð eru höfuðverkjalyf reglulega, er ástæða til gruns um höfuðverk vegna ofnotkunar höfuðverkjalyfja.
- er með eða hefur haft astma eða ofnæmissjúkdóma þar sem mæði getur komið fram
- er með frjókornaofnæmi, sepa í nefi eða langvarandi teppandi öndunarfæraröskun þar sem þá er aukin hætta á ofnæmissvari. Ofnæmissvarið getur komið fram sem astmakast (svo kallaður verkjalyfjaastmi), ofnæmisbjúgur (Quincke‘s bjúgur) eða ofsakláði
- ráðlagt er að forðast notkun Nurofen Junior þegar börn hafa hlaupabólu.
- hefur nýlega gengist undir stóra skurðaðgerð þar sem lækniseftirlit er nauðsynlegt
- hefur ofþornað þar sem hætta á nýrnavandamálum eykst hjá ofþornuðum börnum
- greint hefur verið frá blæðingum, sáramyndun eða rofi í meltingarfærum, sem geta verið banvæn, við notkun allra bólgueyðandi gigtarlyfja, hvenær sem er meðan á meðferð stendur, með eða án viðvörunareinkenna eða fyrri sögu um alvarlega sjúkdóma í meltingarfærum. Þegar blæðing eða sár koma fram í meltingarvegi ætti strax að hætta meðferð. Hættan á blæðingum, sáramyndun, eða rofi í meltingarvegi er meiri við notkun hærri skammta bólgueyðandi gigtarlyfja, hjá sjúklingum með sögu um sár, einkum ef þeim hafa fylgt blæðingar eða rof (sjá kafla 2 „Ekki má gefa Nurofen Junior“) og hjá öldruðum. Þessir sjúklingar ættu að hefja meðferð á lægstu fáanlegu skömmtum. Íhuga ætti samhliða meðferð með verndandi lyfjum (t.d. mísóprostóli eða prótónpumpuhemlum) hjá þessum sjúklingum og einnig þeim sem þurfa samhliða meðferð með lágum skömmtum af aspiríni, eða öðrum lyfjum sem líklegt er að auki áhættuna í meltingarvegi.
Ekki má gefa Nurofen Junior börnum sem:
- eru með ofnæmi fyrir íbúprófeni eða öðrum svipuðum verkjalyfjum (bólgueyðandi gigtarlyfjum) eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins
- hafa einhvern tíma fundið fyrir mæði, astma, nefrennsli, þrota í andliti og/eða höndum eða ofsakláða eftir notkun acetýlsalicýlsýru eða annarra svipaðra verkjalyfja (bólgueyðandi gigtarlyfja)
- hafa einhvern tíma fengið blæðingar eða rof í meltingarvegi, í tengslum við fyrri notkun bólgueyðandi gigtarlyfja
- eru með eða hafa haft endurtekin sár í maga/skeifugörn (ætisár) eða blæðingar (tvö eða fleiri tilvik þar sem blæðing eða sármyndun hafa verið staðfest)
- eru með alvarlega lifrarbilun eða nýrnabilun
- eru með alvarlega hjartabilun
- eru með blæðingar í heila (blæðingar í heilaæðum) eða aðrar virkar blæðingar
- eru með blóðstorknunarvandamál, þar sem íbúprófen getur lengt blæðingartíma
- eru með óútskýrðar truflanir á blóðmyndun
- eru með alvarlega ofþornun (vegna uppkasta, niðurgangs eða ónógrar vökvaneyslu)
Ekki má nota lyfið á síðustu 3 mánuðum meðgöngu.
Sýkingar
Nurofen Junior getur falið einkenni sýkinga svo sem hita og verk. Því er hugsanlegt að Nurofen Junior geti tafið viðeigandi meðferð sýkingar, sem getur leitt til aukinnar hættu á fylgikvillum. Þetta hefur sést í tilvikum lungnabólgu af völdum bakteríusýkingar og húðsýkinga af völdum baktería í tengslum við hlaupabólu. Leitið tafarlaust ráða hjá lækni ef þetta lyf er notað á meðan þú ert með sýkingu ef einkenni sýkingarinnar eru þrálát eða versna.
Húðviðbrögð
Greint hefur verið frá alvarlegum húðviðbrögðum í tengslum við meðferð með Nurofen Junior. Hætta skal töku Nurofen Junior og leita tafarlaust til læknis, ef einhver húðútbrot, slímhúðarsár, blöðrur eða önnur einkenni ofnæmis koma fram, þar sem þetta geta verið fyrstu einkenni mjög alvarlegra húðviðbragða.
Bólgueyðandi lyf og verkjalyf svo sem íbúprófen geta tengst svolítið aukinni hættu á hjartaáfalli eða heilaslagi, sérstaklega við notkun hárra skammta. Ekki taka meira en ráðlagðan skammt og ekki í lengri tíma en ráðlagt er.
Þú skalt ræða meðferðina við lækninn eða lyfjafræðing áður en meðferð með Nurofen Junior hefst ef þú:
- ert með hjartavandamál þ.m.t. hjartabilun, hjartaöng (brjóstverkur) eða ef þú hefur fengið hjartaáfall, gengist undir hjáveituaðgerð, verið með sjúkdóm í útlægum slagæðum (lélegt blóðflæði í fótleggjum eða fótum vegna þröngra eða tepptra slagæða) eða fengið slag af einhverju tagi (þ.m.t. slag sem ekki var alvarlegt (mini-stroke) eða skammvinnt blóðþurrðarkast.
- ert með háan blóðþrýsting, sykursýki, hátt kólesteról, sögu um hjartasjúkdóma eða slag í fjölskyldunni eða reykir).
Leitaðu ráða hjá lækni áður en þú notar Nurofen Junior ef einhver af ofangreindum aðstæðum á við um barnið þitt.
Aldraðir
Aldraðir eiga aukaverkanir frekar á hættu þegar þeir taka bólgueyðandi gigtarlyf, einkum þær sem koma fram í maga og þörmum. Sjúklingar með sögu um eiturverkanir í meltingarfærum, einkum ef þeir eru aldraðir, ættu að greina frá öllum óvenjulegum einkennum frá kvið (einkum blæðingum frá meltingarvegi), sérstaklega í upphafi meðferðar.
Notkun annarra lyfja samhliða Nurofen Junior
Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem barnið notar, hefur nýlega notað eða kynni að nota.
Nurofen Junior getur haft áhrif á önnur lyf og önnur lyf geta haft áhrif á Nurofen Junior. Til dæmis:
- segavarnarlyf (þ.e. blóðþynnandi/fyrirbyggja storknun t.d. aspirín/acetýlsalicýlsýra, warfarín, ticlopidin)
- lyf sem draga úr háum blóðþrýstingi (ACE-hemlar t.d. captopril, beta-blokkar eins og atenolól, angiotensin-II hemlar eins og losartan)
Sum önnur lyf geta einnig haft áhrif á Nurofen Junior og Nurofen Junior getur haft áhrif á þau. Leitið því alltaf ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en Nurofen Junior er notað með öðrum lyfjum.
Láttu sérstaklega vita ef þú notar:
- Önnur bólgueyðandi gigtarlyf þ.m.t. COX-2 hemla því að það getur aukið hættuna á aukaverkunum
- Digoxín (við hjartabilun) því að áhrif digoxíns geta aukist
- Sykurstera (lyf sem innihalda kortisón eða kortisónlík efni) því að það getur aukið hættuna á sáramyndun eða blæðingum í meltingarvegi
- Blóðflöguhemjandi lyf því að það getur aukið hættuna á blæðingum
- Acetýlsalicýlsýru (lágskammta) því að blóðþynningaráhrifin gætu minnkað
- Lyf til blóðþynningar (s.s. warfarín) því að íbúprófen getur aukið áhrif lyfjanna
- Fenýtóín (við flogaveiki) því að áhrif fenýtóíns geta aukist
- Sérhæfða serótónín endurupptökuhemla (lyf við þunglyndi) því það getur aukið hættuna á blæðingum í meltingarvegi
- Litíum (lyf við geðhvörfum og þunglyndi) því að áhrif litíums geta aukist
- Probenecíð og súlfínpýrazón (lyf við þvagsýrugigt) því að útskilnaði íbúprófens getur seinkað
- Lyf við háum blóðþrýstingi og þvagræsandi lyf (bjúgtöflur) því að íbúprófen getur dregið úr áhrifum lyfjanna og hætta fyrir nýru getur aukist
- Kalíumsparandi þvagræsilyf, t.d. amilorid, kalíum canrenoat, spironolacton, triamteren því að það getur leitt til blóðkalíumhækkunar
- Methotrexat (lyf við krabbameini eða gigt) því að áhrif methotrexats geta aukist
- Tacrolimus og cyclosporin (ónæmisbælandi lyf) því að nýru geta orðið fyrir skemmdum
- Zidovudin (lyf við HIV/alnæmi) því að notkun Nurofen Junior getur leitt til aukinnar hættu á blæðingum í lið eða blæðingum sem leiða til bólgu hjá HIV-jákvæðum sjúklingum með dreyrasýki
- Súlfónýlúrealyf (sykursýkilyf) því að það getur haft áhrif á blóðsykursgildi
- Kínólón sýklalyf því að hætta á krampa getur aukist
- Voriconazol og fluconazol (CYP2C9 hemlar) við sveppasýkingum því að áhrif íbúprófens geta aukist. Íhuga ætti lækkun skammta af íbúprófeni, einkum þegar háir skammtar af íbúprófeni eru gefnir með annaðhvort voriconazoli eða fluconazoli
- Baclofen því Baclofen eitrun getur komið fram eftir að notkun íbúprófens hefst
- Ritonavir þar sem Ritonavir getur aukið plasmaþéttni bólgueyðandi gigtarlyfja
- Amínóglýkósíð Bólgueyðandi gigtarlyf geta minnkað útskilnað amínóglýkósíða
Innihaldsefni
- Lyfið inniheldur mjög lítið magn af glúteni (úr hveitisterkju). Það er talið „glútenlaust“ og mjög ólíklegt er að það valdi óþægindum hjá sjúklingum með glútenóþol.
- Ein 5 ml skammtaeining inniheldur ekki meira en 0,315 míkrógrömm af glúteni.
- Þeir sem hafa ofnæmi fyrir hveiti (ekki það sama og glútenóþol) eiga ekki að taka lyfið.
- Nurofen Junior inniheldur fljótandi maltitól. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er notað.
- Getur haft væg hægðalosandi áhrif.
- Hitaeiningar: 2,3 kkal/g af maltitóli.
- Nurofen Junior inniheldur minna en 1 mmól (23 mg) af natríum í hverjum skammti, þ.e.a.s. er sem næst natríumlaust.
Hvernig nota á Nurofen Junior
Taktu alltaf lyfið nákvæmlega eins og læknirinn eða lyfjafræðingur hefur sagt þér. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.
Leitast skal við að nota minnsta virka skammt í eins stuttan tíma og nauðsynlegt er til að lina einkenni.
Leitaðu tafarlaust ráða hjá lækni ef notandinn er með sýkingu ef einkenni sýkingarinnar (svo sem sótthiti og verkur) eru þrálát eða versna.
Ráðlagður skammtur
Við verk og hita
- 6 - 11 mánaða (7 - 9 kg): 50 mg íbúprófen (1,25 ml) 3 - 4 sinnum á sólarhring
- 1 - 3 ára (10 - 15 kg): 100 mg íbúprófen (2,5 ml) 3var á sólarhring
- 4 - 5 ára (16 - 19 kg): 150 mg íbúprófen (3,75 ml) 3svar á sólarhring
- 6 - 9 ára (20 - 29 kg): 200 mg íbúprófen (5 ml) 3svar á sólarhring
- 10 - 12 ára (30 - 40 kg): 300 mg íbúprófen (7,5 ml, notið sprautuna tvisvar: 5 ml + 2,5 ml) 3svar á sólarhring
Skammta skal gefa á u.þ.b. 6 til 8 klst. fresti.
Notkun hjá börnum yngri en 6 mánaða eða undir 7 kg er ekki ráðlögð.
Ráðlagt er að gefa sjúklingum sem eru viðkvæmir í maga Nurofen Junior með mat.
Varúð: notið ekki stærri skammt en gefinn er upp.
Aðferð við að lyfjagjöf með sprautunni
- Hristið flöskuna vel.
- Fjarlægið lokið af flöskunni með því að þrýsta því niður og snúa því rangsælis.
- Þrýstið sprautunni ákveðið inn í innstunguna (gatið) í hálsi flöskunnar.
- Hvolfið flöskunni til að fylla sprautuna. Haldið sprautunni á sínum stað og dragið stimpilinn varlega niður og dragið dreifuna að réttu merki á sprautunni.
- Snúið flöskunni rétt og fjarlægið sprautuna úr innstungunni með því að snúa sprautunni varlega.
- Setjið enda sprautunnar inn í munn barnsins. Þrýstið stimplinum hægt niður og losið dreifuna rólega. Setjið lokið aftur á eftir notkun. Þvoið sprautuna með volgu vatni og leyfið henni að þorna. Geymið þar sem börn hvorki ná til né sjá.
Lengd meðferðar
Þetta lyf er aðeins til skammtímanotkunar. Ef þörf er á notkun lyfsins lengur en í 3 daga eða einkenni versna skal leita læknis.
Ef notaður er stærri skammtur en mælt er fyrir um
Ef of stór skammtur af Nurofen Junior hefur verið notaður, eða ef barn hefur í ógáti tekið inn lyfið skal hafa samband við lækni, sjúkrahús eða eitrunarmiðstöð (sími 543 2222).
Einkenni geta meðal annars verið ógleði, magaverkur, uppköst (getur innihaldið blóð), blæðingar í meltingarvegi, höfuðverkur, eyrnasuð, ringlun og skjálftakenndar augnhreyfingar (augntin) eða niðurgangur í sjaldgæfum tilfellum. Auk þess hefur við stóra skammta verið tilkynnt um svima, þokusýn, eyrnasuð, lágþrýsting, örvun, vistarfirringu, dá, blóðkalíumhækkun, lengdan próþrombíntíma/INR, bráða nýrnabilun, lifrarskemmd, öndunarbælingu, bláma og versnun astma hjá astmasjúklingum. Greint hefur verið frá syfju, brjóstverk, hjartsláttarónotum, meðvitundarleysi, krömpum (aðallega hjá börnum), máttleysi og svima, blóði í þvagi, kuldatilfinningu og erfiðleikum við öndun.
Ef þú eða barnið þitt gleymir að taka Nurofen Junior
Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að taka. Ef þú gleymir að taka eða gefa skammt, taktu hann eða gefðu um leið og þú manst eftir og taktu síðan eða gefðu næsta skammt samkvæmt skammtatöflunni sem lýst er hér að framan.
Leitið til læknis eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingar um notkun lyfsins.
Fyrirvari
Hugsanlegar aukaverkanir má finna í fylgiseðli lyfsins.
Fylgiseðillinn kann að hafa verið uppfærður eftir að upplýsingarnar að ofan voru teknar saman. Í þeim tilfellum sem upplýsingarnar stangast á skal fara eftir því sem fram kemur í fylgiseðli.